Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og James Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, funduðu í Washington í Bandaríkjunum í dag. Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggismálum og innan NATO var á meðal umræðuefna á fundi dagsins, að því er fram kemur í frétt á vef Stjórnarráðsins.
„Samvinna Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum á sér langa sögu og hefur þróast í áranna rás. Undanfarin ár hefur samstarf ríkjanna farið mjög vaxandi samhliða breyttu öryggisumhverfi í Evrópu og á norðanverðu Atlantshafi. Atlantshafstengslin eru mikilvægari nú sem aldrei fyrr og gagnkvæmar skuldbindingar Íslands og Bandaríkjanna standa óhaggaðar. Við fórum yfir mikilvægi samstöðu vestrænna ríkja sem deila sömu gildum í því breytilega öryggisumhverfi sem við búum við,“ segir Guðlaugur Þór.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir helstu áherslumál á vettvangi Atlantshafsbandalagsins í aðdraganda leiðtogafundar bandalagsins í sumar, þ.m.t. auknar áherslur á mikilvægi Norður-Atlantshafsins.
Einnig var loftrýmisgæsla og kafbátarleit og varnaræfingin Trident Juncture 2018 til umfjöllunar. Þá voru helstu viðfangsefni á alþjóðavettnvangi til umræðu, þ.m.t. málefni Miðausturlanda og staða mála á Gaza. Einnig voru málefni norðurslóða á meðal fundarefna.
Utanríkisráðherra átti einnig fundi með Dan Sullivan og Lisu Murkowski, öldungardeildaþingmönnum Alaska, þar sem fríverslun og fjárfestingar, sem og málefni norðurslóða og fyrirhuguð formennska Íslands í Norðurskautsráðinu á næsta ári voru til umræðu.
Innlent