Viðskipti innlent

Filippseyingar svara símtölum frá Bandaríkjunum fyrir Icelandair

Birgir Olgeirsson skrifar
Upplýsingafulltrúi segir samninginn ekki hafa áhrif á starfsmannafjölda í þjónustuveri Icelandair á Íslandi sem mun áfram svara símtölum frá Íslandi og Evrópulöndum.
Upplýsingafulltrúi segir samninginn ekki hafa áhrif á starfsmannafjölda í þjónustuveri Icelandair á Íslandi sem mun áfram svara símtölum frá Íslandi og Evrópulöndum. Vísir/Anton Brink
Icelandair gekk nýlega frá samningum við alþjóðlegt fyrirtæki að nafni WNS Global Services sem sérhæfir sig í rekstri þjónustuvera, meðal annars fyrir flugfélög.

Starfsmenn WNS á Filippseyjum munu annast svörun símtala frá Bandaríkjunum fyrir Icelandair. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við Vísi að vöxtur Icelandair hafi verið mikill á undanförnum árum og fjöldi viðskiptavina aukist mjög.

„Með þessu erum við að auka og bæta þjónustu okkar,“ segir Guðjón. Hann segir þennan samning ekki hafa áhrif á starfsmannafjölda í þjónustuveri Icelandair á Íslandi sem mun áfram svara símtölum frá Íslandi og Evrópulöndum.

WNS er með höfuðstöðvar í Indlandi og er með um 34 þúsund starfsmenn sem vinna í 52 starfsstöðvum fyrirtækisins víða um heim, þar á meðal Indlandi, Bandaríkjunum, Kína, Kosta Ríka, Póllandi, Rúmeníu, Suður Afríku, Srí Lanka og Filippseyjum.

Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru flugfélög á borð við Air Canada, British Airwaves og Virgin Atlantic Airways.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×