Viðskipti innlent

Greiða allt að tífalt hærra verð fyrir gagnasamband

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar.
Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar.
Íslensk fjarskiptafyrirtæki þurfa að greiða Farice, sem rekur sæstrengi á milli Íslands og Evrópu, fimm- til tífalt hærra verð fyrir gagnasambönd heldur en erlendir viðskiptavinir gagnavera hér á landi.

„Við erum í raun í engri samningsstöðu. Þetta er einokun og í okkar huga óásættanleg staða,“ sagði Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri fyrirtækja- og þróunarsviðs Sýnar, á fjárfestafundi félagsins í gær.

Hann sagði félaginu „renna blóðið til skyldunnar“ til þess að taka málin í eigin hendur og kanna fýsileika þess að leggja nýjan sæstreng frá Íslandi til Evrópu.

Eðlilegt væri að spyrja hvort mögulegt væri fyrir Sýn að byggja og reka eigin ljósleiðarastreng fyrir þann kostnað sem greiddur er til Farice. Sá kostnaður væri enda verulegur en Þorvarður benti á að innlend fjarskiptafélög stæðu undir um 50 til 55 prósentum af tekjum Farice.

Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar, tók þó fram að sæstrengsverkefnið væri enn á þróunarstigi og ekki væri því ljóst hvort af því yrði.

Til þess að félagið gæti unnið málið áfram og réttlætt fjárfestinguna myndu íslensk stjórnvöld þurfa að koma að málum.

Vísir er i eigu Sýnar


Tengdar fréttir

„Orðið mjög erfitt að fá raforku á Íslandi“

Kjöraðstæður eru á Íslandi fyrir rekstur gagnavera þar sem kalt loftslag ýtir niður kostnaði við kælingu netþjóna. Hins vegar er Ísland að tapa samkeppnisforskoti í gagnaversiðnaðinum. Formaður Samtaka gagnavera segir nær ómögulegt að fá raforku innanlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×