Íbúar í Sandgerði og Garði völdu nafnið Heiðarbyggð á sameinað sveitarfélag þeirra. Íbúarnir kusu á milli Heiðarbyggðar og Suðurbyggðar en niðurstaða kosningarinnar verður ráðgefandi fyrir nýja sveitarstjórn sveitarfélagsins sem verður kjörin í sveitarstjórnarkosningum síðar í mánuðinum.
Sveitarfélögin voru sameinuð eftir að íbúar samþykktu sameininguna í kosningu 11. nóvember síðastliðinn.
Sveitarfélagið skipaði nafnanefnd til að velja nýtt nafn á sveitarfélagið. Var óskað eftir tillögum að nýju nafni sem voru bornar undir Örnefnanefnd. Þau nöfn sem hlutu jákvæða umsögn frá Örnefnanefnd fóru í kosningu á meðal íbúa en niðurstaðan var kynnt í golfskála Golfklúbbs Sandgerðis, sem er á milli sveitarfélaganna tveggja, á hádegi í dag.
Valið stóð á milli Heiðarbyggðar og Suðurbyggðar.
2.692 voru á kjörskrá en 500 af þeim greiddu atkvæði.
Heiðarbyggð fékk 176 atkvæði en Suðurbyggð 100 atkvæði. 224 skiluðu auðu.
Sýnt var beint frá því þegar niðurstaðan var lesin upp í golfskálanum á Facebook-síðu Víkufrétta. Þar var komið inn á að kosningaþátttaka hefði verið dræm en rætt var um að mögulega væru íbúarnir ekki ánægðir með þessa tvo valkosti.
Dræm þátttaka í kosningu um nýtt nafn sameinaðs sveitarfélags Sandgerðis og Garðs
Birgir Olgeirsson skrifar
