Innlent

Kristján Björnsson nýr vígslubiskup í Skálholti

Kjartan Kjartansson skrifar
Vígsla nýja biskupsins fer fram á Skálholtshátíð 22. júlí.
Vígsla nýja biskupsins fer fram á Skálholtshátíð 22. júlí. Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Talningu atkvæða í vígslubiskupskjöri Þjóðkirkjunnar í Skálholtsumdæmi lauk í dag og var Kristján Björnsson, prestur á Eyrarbakka, kjörinn með 54% atkvæða. Vígsla Kristjáns fer fram sunnudaginn 22. júlí.

Kosið var á milli Kristjáns og Eiríks Jóhannssonar. Alls greiddu 682 atkvæði og hlaut Kristján 371 atkvæði eða 54%, að því er segir í frétt á vef Þjóðkirkjunnar. Eiríkur hlaut 301 atkvæði eða 44% greiddra atkvæða.

Í færslu á bloggsíðu sinni segist Kristján afar þakklátur fyrir stuðning og traust sem honum hafi verið sýnt með kjörinu. Þakkaði hann jafnframt Eiríki fyrir drengskap og vináttu í kjörinu.

„Ég finn til auðmýktar þegar það er svo komið að vera kallaður electus, eða sá sem kjörinn hefur verið og bíður vígslu,“ skrifar Kristján.

Hann segir að vígslan verði í Skálholti á Skálholtshátíð í júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×