Robert Mueller, sérstakur saksóknari í málum tengdum meintum afskiptum Rússa af síðustu forsetakosningum vestanhafs, vill leggja á fimmta tug spurninga fyrir Donald Trump forseta og hefur spurningalistanum verið lekið til dagblaðsins New York Times.
Rannsókn Muellers beinist meðal annars að því hvort forsetinn hafi haft óeðlileg afskipti af fyrri rannsókn sömu mála. Ekki er enn ljóst hvort Mueller verður að þeirri ósk sinni að fá að yfirheyra Trump.
Spurningarnar snúast margar um hugsanagang Trumps og leita skýringa á ummælum sem hann hefur látið falla á Twitter. Þá er forsetinn spurður út í aðdraganda þess að hann rak yfirmann alríkislögreglunnar og ráðgjafa sinn í öryggismálum.
Einnig er hann beðinn að skýra fundi ráðgjafa sinna með Rússum, fasteignaviðskipti í Moskvu, tengsl sín við lögfræðinginn Michael D. Cohen og margt fleira.
