Innlent

Bæjar­full­trúar í Borgar­byggð vilja efla grunn­þjónustuna til að laða að fleiri íbúa

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Bæjarfulltrúar í Borgarbyggð búast við hraðri íbúafjölgun næstu árin og vilja efla grunnþjónustuna til að laða að fleiri í sveitarfélagið. Fjölskylduvænni bær og fjölbreyttara atvinnulíf eru meðal stefnumála fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

Ríflega 3700 manns býr í Borgarbyggð og þar af helmingur í Borgarnesi. Síðustu ár hefur verið tveggja prósenta fjölgun íbúa í Borgarnesi, sem er talsvert hægari fjölgun en til dæmis á Akranesi.  

„Auðvitað viljum við fá fleira fólk, það liggur í hlutarins eðli. Við erum aðeins seinni á bylgjunni en á Skaga því við erum aðeins lengra frá höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gunnlaugur Auðunn Júlíusson, sveitarstjóri Borgarbyggðar.  

Oddvitar flokkanna sem bjóða fram í Borgarbyggð eru allir sammála um að grunnþjónustan í Borgarnesi geti tekið við fleiri íbúum. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking hafa verið í meirihluta síðustu ár og reikna með mikilli fjölgun íbúa næstu ár.

En hvernig?  

„Það er nú fyrst og fremst  með því að lyfta upp því flotta umhverfi sem er hér í Borgarbyggð. Koma skilaboðum til skila til þeirra sem við viljum ná til,“ segir Magnús Smári Snorrason, oddviti Samfylkingarinnar og óháðra.

   

Sjálfstæðismenn vilja bæta þjónustuna til að laða að fólk.   

„Þar með talið endurskoða gjaldskrár og lækka stórlega leikskólagjöld til að laða að fjölskyldufólk og frítt í íþróttir og sund fyrir eldri borgara sveitarfélagsins,“ segir Lilja Björg Ágústsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks.

   

Oddviti Framsóknarflokks vill fjölga leiguíbúðum og efla atvinnulífið. Sama segir oddviti Vinstri grænna sem segir mikla þörf á fjölbreyttum störfum, sérstaklega fyrir háskólamenntaða.

„Við viljum auka fjölbreytni í atvinnulífinu hér. Það er hægt að gera það með auknu framboði á lóðum og koma til móts við fyrirtæki svo þau sjái hag sinn í að reka sinn rekstur hér frekar en annars staðar,“ segir Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir, oddviti Vinstri grænna í Borgarbyggð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×