Skoðun

Að sækja vatnið yfir hafið

Davíð Þorláksson skrifar
Fréttablaðið birti nýverið viðtal við Leif Aðalsteinsson sem er á biðlista eftir liðskipta­aðgerð. Eftir 2,5 mánuði fær hann svar um að hann fái viðtal við bæklunarlækni eftir 5-6 mánuði. Um 1.100 manns voru á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum í hnjám og mjöðmum í febrúar. Margt þetta fólk þjáist ekki bara á líkama heldur veldur þetta líka félagslegri einangrun þar sem vilji og geta til mannlegra samskipta minnkar.

Þegar Leifur er búinn að bíða og þjást í meira en þrjá mánuði býðst honum að fara í aðgerð til Svíþjóðar sem er að fullu greidd af Sjúkratryggingum. Klíníkin er íslenskt einkasjúkrahús sem hefur gert fjölda slíkra aðgerða. Kostnaðurinn er þriðjungur af kostnaðinum við að senda Leif í aðgerð til Svíþjóðar. Samt vilja stjórnvöld ekki gera samning við Klíníkina um að hún annist slíkar aðgerðir fyrir þau.

Ástæðan er sú kredda sem birtist í ótta stjórnmálamanna við einkarekstur. Þeir vilja frekar leggja í hærri kostnað til að erlent ríkissjúkrahús sinni aðgerð heldur en íslenskt einkasjúkrahús. Norðurlöndin eru löngu búin að fatta að einkarekstur styttir bið, bætir þjónustu og minnkar kostnað. T.d. eru aðeins 16 prósent heilsugæslu á Íslandi einkarekin á meðan hlutfallið er 20 prósent í Svíþjóð, 80 í Noregi og 100 prósent í Danmörku.

Stundum eru það íslenskir læknar sem framkvæma aðgerðirnar í hlutastörfum ytra. Jafnvel eru dæmi um að sjúklingur og læknir fari utan í sömu flugvél á okkar kostnað. Þar er ekki bara verið að sækja vatnið yfir lækinn, heldur yfir hafið.




Skoðun

Sjá meira


×