Völdum tölvupóstum landsnefndarinnar var svo dreift af Wikileaks.
„Í forsetakosningunum 2016 gerðu Rússar allsherjar árás á lýðræði okkar og fundu þeir fúsan samstarfsaðila í framboði Donald Trump,“ sagði Tom Perez, formaður landsnefndar Demókrataflokksins, í yfirlýsingu, samkvæmt Washington Post.
„Þetta eru fordæmalaus svik. Framboð manns til forseta Bandaríkjanna starfaði með óvinveittu ríki til að auka líkur sínar á því að sigra í kosningunum.“
Landsnefndin fer fram á milljónir dala í skaðabætur. Tölvuárásirnar eru sagðar hafa valdið flokknum miklum skaða, bæði í atkvæðum talið og fjárhagslegum skaða. Sömuleiðis hafi starfsmenn flokksins orðið fyrir áreitni vegna málsins og jafnvel borist morðhótanir.
Gerðu það sama við Nixon
Lögsókn þessi er í takt við lögsókn Demókrataflokksins gegn framboði Richard Nixon vegna Watergate hneykslisins. Þá fór landsnefnd Demókrataflokksins fram á milljóna dala í skaðabætur vegna innbrotsins í höfuðstöðvar þeirra í Watergate-byggingunni.Því er haldið fram í kærunni að starfsmenn framboðs Trump hafi ítrekað fengið veður af gangi tölvuárásanna og að Rússar sætu á miklu magni upplýsinga frá Demókrataflokknum. Þeim fregnum hafi verið tekið fagnandi og á endanum hafi Trump-liðar gert samkomulag við Rússa.
Í kærunni eru nokkrir starfsmenn Trump nefndir sérstaklega; Donald Trump yngri, Jared Kushner, Paul Manafort og Rick Gates. Trump yngri er sonur forsetans, Kushner er tengdasonur hans, Manafort stýrði framboði Trump um tima og Gates var undirmaður Manfort.
Sömuleiðis er Roger Stone nefndur, en hann og Trump hafa lengi verið nánir og áður en það var opinbert gaf Stone í skyn opinberlega að Rússar sætu á upplýsingum sem kæmu Hillary Clinton illa.
Sérfræðingar sammála
Landsnefnd Demókrataflokksins fékk öryggisfyrirtækið CrowdStrike til að rannsaka tölvuárásirnar gegn flokknum á sínum tíma, eftir að FBI varaði flokkinn við því að hakkarar hefðu mögulega brotið sér leið inn í tölvukerfi þeirra.Þá hafði öryggisfyrirtækið SecureWorks verið að fylgjast með grunsamlegum tölvupóstum sem höfðu verið sendir á starfsmenn landsnefndar Demókrataflokksins (DNC) og framboð Hillary Clinton. Niðurstaða þess fyrirtækis var að hakkarar á vegum rússneskra yfirvalda væru að störfum þar.
Dmitri Alperovitch, eigandi CrowdStrike, hefur sagt að þeir hafi gómað hakkarana að verki þegar demókratar réðu þá í maí. Þeir hafi fylgst með hökkurunum inni í kerfi Demókrataflokksins.
Hér má sjá hluta viðtals CNN við Alperovitch frá því í desember 2016 þar sem hann fer yfir málið.
Kóðar, vefþjónar og önnur tól, sem áður höfðu verið tengdir við hópana tvo voru notaðir við árásirnar á Demókrataflokkinn.
Niðurstaðan var sú að hópar tölvuhakkara sem vinna fyrir leyniþjónustur Rússlands gerðu tölvuárásir á, meðal annars, Demókrataflokkinn og aðila sem komu að framboði Hillary Clinton. Tölvupóstar og önnur gögn sem komu framboðinu illa voru síðan birtir af Wikileaks. Julian Assange, neitar þó að Rússar hafi látið Wikileaks hafa gögnin.
Cozy Bear og Fancy Bear hafa um árabil verið bendlaðir við árásir á ríkisstjórnir þjóða í NATO og heri þeirra, vopnaframleiðendur og jafnvel blaðamenn.