Körfubolti

Hester var „augljóslega ekki tilbúinn að spila“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Antonio Hester skoraði bara fjögur stig í kvöld
Antonio Hester skoraði bara fjögur stig í kvöld vísir/bára
Tindastóll tapaði stórt fyrir KR í fyrsta leik í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta á Sauðárkróki í kvöld. Antonio Hester, einn besti leikmaður Stólanna, meiddist í leiknum í kvöld.

Hester var tæpur á ökkla fyrir leikinn, en hann meiddist í síðasta leik gegn ÍR. Hann snéri sig svo á hinum ökklanum í leiknum í kvöld þegar hann reyndi að verja skot frá Brynjari Þór Björnssyni.

„Þetta er hinn ökklinn. Ég veit ekki hver staðan á honum er, sjúkraþjálfarinn er að skoða hann. Það verður að koma í ljós hvort hann verði tilbúinn á sunnudaginn,“ sagði Israel Martin, þjálfari Tindastóls, í viðtali við Svala Björgvinsson eftir leikinn í kvöld.

Hester átti augljóslega í vandræðum með ökklann í leiknum en Martin hélt áfram að skipta honum inn á í loka fjórðungnum. Hann sagði það hafa verið vegna þess að leikmaðurinn bað um að fá að koma aftur inn á, hann gæti spilað.

„Hann var augljóslega ekki tilbúinn til þess að spila í kvöld.“

Leikur tvö í einvíginu fer fram í Vesturbænum á sunnudaginn og er mikið skarð fyrir skildi fyrir Tindastól ef Hester getur ekki verið með af fullum krafti í þeim leik en hann er með 21 stig og 8,7 fráköst að meðaltali í leik.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×