Innlent

Tillögur um breytingar á heimaþjónustu ljósmæðra óæskilegar að mati fagfólks

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Nýbakaðar mæður munu fá þá þjónustu sem þær þurfa þrátt fyrir að heimaþjónustuljósmæður hafi lagt niður stör.
Nýbakaðar mæður munu fá þá þjónustu sem þær þurfa þrátt fyrir að heimaþjónustuljósmæður hafi lagt niður stör. Vísir/Gva
Þær tillögur sem Sjúkratryggingar Íslands sendu velferðarráðuneytinu um breytingar á heimaþjónustu ljósmæðra eru að mati fagfólks Sjúkrahússins á Akureyri og Landspítalans óæskilegar. Nái þær fram að ganga muni þær leiða til lakari þjónustu við mæður og foreldra nýbura sem og aukins kostnaðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá velferðarráðuneytinu vegna þess að 95 heimaþjónustuljósmæður hafa lagt niður störf. Ástæðan er sú að ekki hefur verið skrifað undir samning um störf þeirra við Sjúkratryggingar Íslands.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að ekki sé rétt að tilbúinn samningur liggi í ráðuneytinu og bíði þess að ráðherra undirriti hann. Hið rétta er að þann 23. mars síðastliðinn komu Sjúkratryggingar minnisblaði á framfæri við ráðuneytið þar sem lagðar voru til breytingar á rammasamningnum. Var minnisblaðið sent í kjölfar samningaviðræðna Sjúkratrygginga við ljósmæður.

„Tillögurnar sem  um ræðir fela í sér skerðingu á heimaþjónustu ljósmæðra sem ljóst er að myndu hafa töluverð áhrif inn á fæðingardeildir sjúkrahúsanna, þar sem verið væri að breyta faglegum áherslum þjónustunnar með lengri legutíma hjá hluta mæðra og það fæli jafnframt í sér aukið álag á fæðingardeildirnar.

Velferðarráðuneytið leitaði umsagnar Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) og Landspítalans við tillögum að breyttri heimaþjónustu ljósmæðra á rammasamningi. Viðbrögð SAk bárust ráðuneytinu fyrir nokkru og Landspítalinn sendi ráðuneytinu afstöðu sína í morgun.

Í stuttu máli er það mat fagfólks beggja sjúkrahúsanna að þær breytingar á þjónustunni sem þarna eru lagðar til séu óæskilegar og leiði jafnt til lakari þjónustu við mæður og foreldra nýbura og aukins kostnaðar. Um þetta segir m.a. í umsögn Landspítala að lengri sjúkrahúslega auki hættuna á spítalasýkingum bæði er varðar móður og barn,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

Þar segir jafnframt að fundað verði í ráðuneytinu í dag vegna málsins en heilbrigðisráðherra leggur kapp á að finna fyrirkomulagi á þjónustu við sængurkonur í heimahúsum traustari farveg.

Þá munu nýbakaðar mæður njóta allrar þeirrar þjónustu sem þörf er fyrir þrátt fyrir að heimaþjónustuljósmæður hafi lagt niður störf en ráðherra sendi erindi til allra heilbrigðisstofnana landsins í dag með þeim tilmælum að þær veiti þá þjónustu sem heimaljósmæður hafa veitt. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×