DACA-áætlunin svonefnda hefur orðið að pólitísku bitbeini repúblikana og demókrata síðustu mánuðina. Áætluninni var komið á í tíð Baracks Obama, fyrrverandi forseta, til að tryggja stöðu hóps innflytjenda sem hafði vissulega komið ólöglega til landsins en hafði ekki þekkt neitt annað heimaland en Bandaríkin.
Trump ákvað að afnema áætlunina í haust og fól þinginu að finna út úr hvað yrði um skjólstæðinga áætlunarinnar. Hvorki hefur gengið né rekið með það en Trump hefur ekki viljað samþykkja neina lausn fyrir DACA-skjólstæðinga nema að hún feli í sér verulegan samdrátt á löglegum flutningi fólks til Bandaríkjanna og fjármögnun á umdeildum landamæramúr hans við Mexíkó.
Fá þrjá mánuði til að standa fyrir máli sínu
Þrátt fyrir það hefur almennur stuðningur verið við það að skjólstæðingar DACA, sem nefndir eru dreymendur [e. Dreamers]. Svo umdeild var ákvörðun Trump að Obama, sem hefur að mestu haldið sig til hlés eftir að hann lét af embætti forseta, rauf þögn sína og gagnrýndi hana harðlega.Nú hefur alríkisdómstóll í Washington-borg úrskurðað að áætlunin verði að vera áfram í gildi og að yfirvöld verði að taka við nýjum umsóknum um vernd á grundvelli hennar. Dómarinn taldi að ákvörðunin um afnám DACA hafi byggst á „nánast óútskýrðum“ forsendum um að áætlunin „stæðist ekki lög“.
Bandarísk stjórnvöld hafa engu að síður níutíu daga til þess að gera betur grein fyrir ákvörðuninni áður en úrskurðurinn tekur gildi, að sögn New York Times. Tveir aðrir alríkisdómstólar höfðu áður úrskurðað að áætlunin yrði að halda áfram í gildi en hvorugur þeirra kvað á um að taka þyrfti við nýjum umsóknum.