Innlent

Stefnt að því að byggja 550 ný hjúkrunarrými á næstu fimm árum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Heilbrigðisráðherra kynnti í morgun stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2023 þar sem heildarfjöldi nýrra og endurbættra rýma á landsvísu verður 790. Mesta þörfin er á höfuðborgarsvæðinu en á sama fundi kynnti borgarstjóri sjö möguleg uppbyggingarsvæði fyrir slík rými.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem var haldinn var í Höfða í morgun. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir um stórátak að ræða í uppbygginu hjúkrunarrýma en alls verð 550 ný rými byggð og endurbætur gerðar á 240 rýmum.

„En áætlunin sem við vorum með fyrir framan okkur gerir ráð fyrir 250 nýjum rýmum en nú erum við að bæta 300 við þannig að við erum komin með 550 rými á þessum tíma fjármálaáætlunarinnar og þar til viðbótar eru rými þar sem farið verður í endurbætur á eldri rýmum þannig að allt í allt erum við að tala um framvæmdir við 70 rými á þessum tíma.“

Hún segir markmiðið í fjármálaáætluninni að fólk þurfi ekki að bíða meira en 90 daga eftir hjúkrunarrými en biðtíminn er nú um 109 dagar. Aðspurð hvað þetta muni kosta segir Svandís að heildarpakkinn muni kosta 26 til 27 milljarða króna.

Svandís segir að sveitarfélögin muni taka á sig um 15% af kostnaðinum eða rúmlega fjóra milljarða króna. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti á fundinum sjö möguleg uppbyggingarsvæði fyrir hjúkrunarrými í Reykjavík.

„Sumt er gott að hafa í stórum rekstareiningum, annað kannski í minni. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að finna lóðir og uppbyggingarmöguleika fyrir allar gerðir og viljum nú botna það hratt og vel með ráðuneytinu hver forgangsröðunin er þeim megin og setja sem mest af stað sem hraðast,“ segir Dagur.

Fundurinn var upphaf að þriggja daga nýsköpunarvinnustofu þar sem rætt verður um áskoranir í öldrunarþjónustu. Landspítalinn í samvinnu við heilbrigðisráðherra og borgarstjóra standa að fundinum en til samráðs eru fulltrúar Landssambands eldri borgara, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Alzheimersamtökin. Niðurstöður hans verða kynntar á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×