Innlent

Hægt er að greina hvenær flogaveikiskast verður og bregðast við

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Hægt er að greina hvenær flogaveikiskast verður og hvar það á sér stað í heilanum með nýjum heilaritum sem Háskólinn í Reykjavík og Landspítalinn hafa fjárfest í. Tækið styður við meðferð og greiningu á ýmsum heila-og taugasjúkdómum.

Um er að ræða byltingarkennda heilarita sem hafa um tvö hundruð og fimmtíu rafskaut til að mæla og greina taugar í heilanum en slíkir ritar höfðu áður aðeins nokkur rafskaut. Framleiðandi ritanna segir að tækin flýti bæði meðferð og greiningu á ýmsum heila- og taugasjúkdómum og geti gagnast á heilbrigðisstofnunum, fyrirtækjum og heimilum.

„Fylgjast má með ýmsum sjúkdómum eins og heilabilun, alsheimerssjúkdómi, þunglyndi og fleiri einkennum. Við getum nú gripið auðveldar inn í ferlið með tækjum sem nema taugaviðbrögð. Beita má þessari tækni heima, án þess að vera á sjúkrahúsi,“ segir Frank Zanow framkvæmdastjóri Ant Neuro.

Háskólinn í Reykjavík og Landspítalinn hafa fjárfest í hettunum og munum þær nýtast á margvíslegan hátt.

„Þetta auðveldar mjög allar athuganir. Það er hægt að gera meira af slíkum mælingum og vinna meira úr þeim,“ segir Þórður Helgason heilbrigðisverkfræðingur á Landspítalanum og dósent við HR.

Hann segir vel mögulegt að hetturnar fari í almenna notkun og það hefði jákvæð áhrif.

„Vonir standa til að það væri hægt að sjá fyrir hvenær köst koma og þar með bregðast við kannski áður en kastið kemur, til dæmis með lyfjameðferð. Að minnsta kosti að koma sér í skjól þar sem maður getur ráðið við flogið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×