Innlent

Hafa þurft að fresta hjartaaðgerð sex sinnum hjá sama sjúklingi

Hulda Hólmkelsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Læknaráð Landspítalans lýsir yfir miklum áhyggjum af viðvarandi skorti á legurýmum á gjörgæsludeildum spítalans og ítrekuðum frestunum stærri aðgerða.
Læknaráð Landspítalans lýsir yfir miklum áhyggjum af viðvarandi skorti á legurýmum á gjörgæsludeildum spítalans og ítrekuðum frestunum stærri aðgerða. vísir/hanna
Sjúklingar á leið í stærri aðgerðir á borð við hjartaaðgerðir á Landspítalanum hafa þurft að þola endurteknar frestanir á síðustu stundum. Dæmi eru um að fresta hafi þurft hjartaaðgerð allt að sex sinnum hjá sama sjúklingi.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá læknaráði Landspítalans, þar sem ráðið lýsir yfir miklum áhyggjum af viðvarandi skorti á legurýmum á gjörgæsludeildum spítalans og ítrekuðum frestunum stærri aðgerða.

„Sjúklingar á leið í stærri aðgerðir á borð við hjartaaðgerðir hafa þurft að þola endurteknar frestanir á seinustu stundu. Á seinasta ári var 36% allra hjartaaðgerða frestað vegna skorts á legurýmum á gjörgæslu og 20% vegna annarra þátta,“ segir í yfirlýsingu læknaráðsins. 

Ástæður ítrekaðra frestana á aðgerðum eru einkum skortur á starfsfólki, þá sérstaklega sérmenntuðum hjúkrunarfræðingum, skortur á legurýmum á gjörgæslu, aldursaukning þjóðarinnar, aukinn ferðamannastraumur og þröngur og úreltur húsakostur sem samræmist ekki nútímakröfum.

Ráðið segir núverandi ástandi hvorki sjúklingum Landspítalans né starfsfólki boðlegt og hvetja stjórnvöld til að leggja þegar fram fjármagn til stækkunar og breytinga á núverandi húsnæði. Ljóst þykir að nýr spítali verði ekki tilbúinn til notkunar á allra næstu árum, en endurbætur á gjörgæsludeildum þoli enga bið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×