„Það kom upp hugmynd í vetur og okkur langaði að taka hana skrefinu lengra og brugga bjór,“ segir Knútur Rafn Ármann garðyrkjubóndi og eigandi Friðheima. Í dag bjóða þau sveitungum og velunnurum að koma og smakka fyrsta tómatbjórinn á Íslandi.
Bjórinn er bruggaður í samstarfi við brugghúsið Ægisgarð á Granda í Reykjavík og er „léttur sumar-stemmnings bjór,“ að sögn Knúts.
Knútur segir bjórinn byrja í sölu hjá þeim í Friðheimum en síðan komi í ljós hvort hann fari í almenna sölu.
Knútur og fjölskylda keyptu Friðheima árið 1995 og byrjuðu að taka á móti gestum í gróðurhúsið fyrir tíu árum. Síðan þá hefur reksturinn stækkað umtalsvert. „Við opnuðum gestastofuna árið 2008 og tókum á móti 900 gestum það árið. Í fyrra komu svo 160 þúsund gestir og sennilega koma um 170 til 180 þúsund gestir í ár.“
Knútur segir engin áform um að stækka veitingastaðinn, þau vilji halda í gæðin frekar en að auka fjölda gesta. En þau stefna að því að auka framleiðsluna á tómötum, enda eru Friðheimar garðyrkjustöð í grunninn.
Ferðaþjónustan er orðin umfangsmesti hluti rekstrarins og eru 40 fastráðnir starfsmenn allt árið í Friðheimum. Á sumrin eru starfsmenn 50 talsins vegna anna í ferðaþjónustu og hestasýningum, en í Friðheimum er einnig stunduð hrossarækt.
„Það er jákvætt í ferðaþjónustunni að geta haldið 40 starfsmönnum allt árið,“ segir Knútur og bætir við að hann sé stoltur af því að vera með alþjóðlegt samfélag í Friðheimum.
Það sé mikill styrkur að velja fólk frá mismunandi löndum í starfsliðið enda komi ferðamenn frá mörgum löndum í heimsókn til þeirra.
Starfsmannavelta er ekki mikil en þau fá um 20 til 30 starfsumsóknir um starf í mánuði. Þau geta því valið fólk inn í starfsemina, sem sé jákvætt.
Knútur segir gaman hversu margir Íslendingar heimsæki Friðheima á veturna, en á sumrin séu þetta útlendingar til hálfs á við Íslendinga. Veitingastaðurinn er opinn allan ársins hring frá klukkan 12 til 16 en nú þegar séu einhverjir dagar fullbókaðir í sumar. Hann hvetur því fólk til að bóka fyrir fram ætli það sér að koma í heimsókn.
Hann segir að lokum mörg tækifæri vera í kortunum fyrir Friðheima og bjart sé fram undan.
Brugga fyrsta tómatbjórinn
Tengdar fréttir
Kim og Kanye í góðu yfirlæti á Friðheimum
Stjörnuparið Kim Kardashian og Kanye West fóru frá Reykjavík og suður á land ef marka má samfélagsmiðilinn Snapchat.
Friðheimar hljóta nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar
Friðheimar í Bláskógabyggð eru handhafi nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2017.