Innlent

Stefna á lokun í Reykjadal fram í miðjan maí

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr Reykjadal í fyrradag.
Úr Reykjadal í fyrradag. Umhverfisstofnun
Umhverfisstofnun leggur til að lokað verði fyrir aðgang ferðamanna að Reykjadal næstu fjórar vikurnar. Göngustígnum í Reykjadal var lokað þann 31. mars vegna aurbleytu. Bæði liggja stígurinn og næsta umhverfi undir skemmdum. Hefur starfsmaður Umhverfisstofnunar vaktað upphaf gönguleiðarinnar síðan og vísað fólki frá.

Mikill fjöldi ferðamanna fer í Reykjadal á degi hverjum en um þriggja kílómetra ganga er frá bílastæðinu við Hveragerði og upp að baðstaðnum við ána í Reykjadal.

Á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að úttekt hafi verið gerð á göngustígnum í gær. Rigning var á svæðinu þegar úttektin fór fram og svæðið mjög blautt. Klaki er enn í jörðu og því nær það vatn sem safnast á svæði ekki að komast í burtu.

„Ekki er æskilegt að hleypa umferð um svæðið á meðan svæðið er enn mjög blautt þar sem það myndi valda frekari skemmdum á stígnum og umhverfi hans,“ segir í skýrslu sem Þórdís Vilhelmína Bragadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun skrifar undir.

Í skýrslunni kemur fram að í kjölfar lokunar svæðisins þann 31. mars hafi landeigandin, Landbúnaðarháskóli Íslands, farið í framkvæmdir á svæðinu á um 600 metra kafla þar sem ástand svæðisins var hvað verst. Skv. verklýsingu verktaka hafi stígurinn verið jafnaður, ýmist með því efni sem í honum var eða með efni sem flutt var á svæðið. 2000 mottueiningar voru lagðar í 99 cm breiðan stíg og yfir blautustu svæðin var breiddin höfð 132 cm.

Umhverfisstofnun hefur óskað eftir umsögnum hagsmunaaðila varðandi framlengingu á lokuninni. Frestur til að skila þeim rennur út á hádegi í dag, klukkan tólf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×