Erlent

Þúsundir Ungverja mótmæltu Orban-stjórninni

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendurnir sökuðu Orban meðal annars um að stela kosningunum um liðna helgi.
Mótmælendurnir sökuðu Orban meðal annars um að stela kosningunum um liðna helgi. Vísir/AFP
Tugir þúsunda manna tóku þátt í mótmælum gegn ríkisstjórn Viktors Orban forsætisráðherra í Búdapest í gær. Mótmælin beindust meðal annars að ósanngjörnu kosningakerfi, spillingu og misbeitingu valds í stjórnartíð Orban.

Fidesz-flokkur Orban hélt velli í kosningunum í Ungverjalandi um síðustu helgi. Flokkurinn fékk tvö af hverjum þremur þingsætum þrátt fyrir að hafa aðeins hlotið helming atkvæða á landsvísu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Það var meðal annars gegn þessu sem mótmælin voru haldin en yfirskrift þeirra var „Við erum meirihlutinn“. Fréttaritari BBC í Búdapest segir að um 100.000 manns hafi tekið þátt í þeim. Það er svipaður fjöldi og tók þátt í göngu til stuðnings Orban í síðasta mánuði.

Mótmælendur hafa krafist endurtalningar á öllum atkvæðum, breytingum á kosningalögum, sjálfstæðra fjölmiðla og betri samvinnu á mili stjórnarandstöðuflokka.

Orban hefur verið sakaður um að fikra sig sífellt lengra í átt að valdboðsstjórnarfari. Helstu stefnumál flokks hans er andúð á Evrópusambandinu og flóttamönnum.

Óháðir fjölmiðlar hafa átt undir högg að sækja í Ungverjalandi. Annað af tveimur dagblöðum landsins sem er ekki hliðhollt ríkisstjórninnni lokaði í vikunni vegna fjárhagsvandræða.


Tengdar fréttir

Orbán áfram við völd

Fidesz-flokkur forsætisráðherra Ungverjalands fór með sigur af hólmi í þingkosningunum í Ungverjalandi sem haldnar voru í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×