Yfirlýsing stjórnvalda í Mjanmar um að fimm manna Róhingjafjölskylda hafi snúið aftur heim til Rakhine-héraðs er fáránleg og farsi. Þetta sögðu stjórnvöld í Bangladess í gær, sögðu fjölskylduna raunar aldrei hafa yfirgefið Mjanmar yfirhöfuð.
Hundruð þúsunda Róhingjafjölskyldna hafa hins vegar flúið Mjanmar frá því í ágúst í fyrra. Flestir hafa flúið til Bangladess en mjanmarski herinn hefur verið sakaður um þjóðernishreinsanir, jafnvel þjóðarmorð á Róhingjum.
Ríkin tvö hafa komist að afar umdeildu samkomulagi um að senda flóttamennina heim aftur en slíkir flutningar eru ekki hafnir.
Að sögn Abul Kalam, sem fer með stjórn á málefnum flóttamanna í Bangladess, fór umrædd fjölskylda ekki lengra en að landamærasvæðinu sjálfu, sem tilheyrir Mjanmar. „Þess vegna er ekki hægt að tala um neina heimkomu. Bangladess á engan hlut að þessu máli,“ sagði Kalam við fréttastofu AP.
