Viðskipti innlent

2,5 milljarða króna súrefnis - og köfnunarefnisverksmiðja tekin í notkun

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
ÍSAGA tók í notkun nýja 2,5 milljarða króna súrefnis - og köfnunarefnisverksmiðju  í dag. Verksmiðjan er staðsett í Vogum á Vatnsleysuströnd og var það iðnaðar - og viðskiptaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, sem tók hana formlega í notkun við hátíðlega athöfn, að viðstöddum bæjaryfirvöldum í Vogum, þingmönnum Suðurkjördæmis og fleiri gestum.  

Fjárfestingakostnaður vegna verksmiðjunnar er um 2,5 milljarðar, fyrst og fremst í tækjabúnaði. 

Verksmiðjan framleiðir súrefni og köfnunarefni úr andrúmsloftinu og er ætlað að styðja við íslenskan iðnað og framleiðslu, ásamt því að sjá heilbrigðisþjónustunni áfram fyrir hágæða súrefni. 

Verksmiðjan nýja er alsjálfvirk og mun henni verða fjarstýrt af starfsfólki sem fylgist með rekstrinum allan sólarhringinn. 

Enginn mengandi úrgangur eða aukaefni eru sögð fylgja framleiðslunni og eini útblástur verksmiðjunnar er lyktarlaus vatnsgufa. 

Fyrirtækið starfrækir einnig verksmiðjur við Breiðhöfða í Reykjavík og að Hæðarenda í Grímsnesi. Nýja verksmiðjan leysir hina 40 ára gömlu verksmiðju við Breiðhöfða af og mun aðkastageta þessarar nýju vera 30% meiri, eða  1.200 m³ á klukkustund, og orkunotkunin umtalsvert minni en á Breiðhöfða.

Bygging þessarar nýju verksmiðju ÍSAGA ehf., og þýska móðurfélagsins Linde, er fyrsta skrefið í að flytja meginstarfsemi fyrirtækisins í Voga á Vatnsleysuströnd. 

Staðsetningin í Vogum mun einnig draga umtalsvert úr kolefnisspori ÍSAGA, þar sem um 90% af því fljótandi súrefni sem fyrirtækið framleiðir fer til viðskiptavina sem eru innan við 100 km fjarlægð frá Vogum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×