Erlent

Einn lést þegar þotuhreyfill sprakk

Þórhildur Erla Pálsdóttir skrifar
Flugvélin þurfti að nauðlenda í Fíladelfíu.
Flugvélin þurfti að nauðlenda í Fíladelfíu. Vísir/AFP
Einn lést eftir að hreyfill farþegaþotu bandaríska flugfélagsins Southwest Airlines sprakk í dag. Flugvélin var á leið frá New York til Dallas en nauðlenda þurfti vélinni í Fíladelfíu. Þetta er fyrsta banaslys í flugi í Bandaríkjunum frá árinu 2009 samkvæmt samgönguöryggisnefnd Bandaríkjanna (NTSB).

Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að kona sem var farþegi í vélinni hafi næstum því sogast út um gat sem kom á vélina eftir að brak úr hreyfli vélarinnar skemmdi hana. Farþegar vélarinnar hafi haldið henni og náð að toga hana aftur inn. Ekki liggur fyrir hvort að konan sé farþeginn sem lét lífið. Einn farþegi vélarinnar var fluttur lífshættulega slasaður á sjúkrahús og sjö aðrir voru lítillega slasaðir.

Reuters greinir frá því að 144 farþegar hafi verið um borð í vélinni ásamt fimm manna áhöfn. Ekki er ljóst hvort að konan sem sogaðist út hafi verið sú sem lést eða annar farþegi vélarinnar en starfsmaður öryggisnefndarinnar vildi ekki greina frekar frá því hvernig dauða farþegans bar að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×