Erlent

Forstjóri CIA fundaði með Kim Jong-un

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mike Pompeo er háttsettasti bandaríski embættistmaður sem fundað hefur með stjórnvöldum í Norður-Kóreu í háa herrans tíð.
Mike Pompeo er háttsettasti bandaríski embættistmaður sem fundað hefur með stjórnvöldum í Norður-Kóreu í háa herrans tíð. Vísir/Getty
Mike Pompeo, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA og verðandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er sagður hafa ferðast til Pjongjang, höfuðborgar Norður-Kóreu, þar sem hann á að hafa fundað með leiðtoga ríkisins, Kim Jong-un.

Samkvæmt nafnlausum heimildarmönnum bandarískra fjölmiðla átti fundurinn sér stað um páskahelgina og er sagður undirbúningur fyrir fund Bandaríkjaforsetans Donald Trump og fyrrnefnds Kim sem fram á að fara í maí.

Vísir greindi frá því í gærkvöldi að Trump hafi ýjað að fundi milli háttsettra embættismanna Bandaríkjanna og Norður-Kóreu. Fáir bjuggust þó við á þeim tímapunkti að um væri að ræðan sjálfan forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar og leiðtoga hins einangraða ríkis. Ef heimildarmenn bandarískra miðla hafa rétt fyrir sér er ljóst að páskafundurinn markar ákveðin þáttaskil í sögu ríkjanna. Svo háttsettir embættismenn ríkjanna tveggja hafa ekki fundað síðan árið 2000.

Hvíta húsið hefur ekki viljað tjá sig um páskafundinn.

„Við höfum átt beinar viðræður á mjög háu stigi, gríðarlega háu stigi, við Norður-Kóreu. Ég trúi því virkilega að þetta leiði af sér velvilja, að góðir hlutir séu að gerast. Við sjáum til hvað gerist...vegna þess að á endanum er það niðurstaðan sem skiptir máli, ekki hvort að við séum að hugsa um að funda eða að funda,“ sagði Bandaríkjaforseti í gær á fundi með forsætisráðherra Japans, Shinzo Abe.

Þá sagðist Trump jafnframt styðja fyrirhugaðar viðræður Norður- og Suður-Kóreu sem fram eiga að fara skömmu áður en Bandaríkjamenn setjast við samningaborðið með þeim fyrrnefndu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×