Erlent

Erdoğan flýtir kosningum og verður valdamesti maður frá dögum Atatúrks

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Erdoğan hefur verið valdamesti maður landsins í fimmtán ár og er enn að bæta við sig völdum
Erdoğan hefur verið valdamesti maður landsins í fimmtán ár og er enn að bæta við sig völdum Vísir/EPA
Recep Tayyip Erdoğan, forseti Tyrklands, hefur ákveðið að flýta kosningum til þings og forseta um heilt ár og verður kosið 24. júní næstkomandi. Kosningarnar eru liður í umfangsmiklum breytingum á stjórnkerfi landsins sem er ætlað að færa enn meiri völd til forsetans.

Erdoğan hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir einræðistilburði en hann var forsætisráðherra á árunum 2003 til 2014. Hann mátti ekki gefa kost á sér aftur þar sem hann hafði setið þrjú kjörtímabil en stjórnarflokkurinn AKP beitti sér þá fyrir stjórnarskrárbreytingum sem færðu völd til forsetaembættisins og Erdoğan sigraði forsetakosningarnar sama ár. Hann hefur síðan rekið og fangelsað fjölda herforingja, dómara, fræðimanna og blaðamanna sem hann taldi ógna völdum sínum.

Í fyrra voru svo samþykktar stjórnarskrárbreytingar sem munu færa framkvæmdavaldið alfarið í hendur forsetans og verði Erdoğan sigurvegari kosninganna í júní, eins og búist er við, verður hann valdameiri en nokkur maður hefur verið í Tyrklandi frá dögum Atatúrks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×