Skoðun

Tómhyggja og dómhyggja

Skúli S. Ólafsson skrifar
„Taugavísindi sýna að við erum ekki með sál.“ Svona kemst merkur taugalíffræðingur að orði. Hann ritaði metsölubók og fékk miklu fleiri gesti á fyrirlestur sinn en biskup við páskamessu sína. Um þetta ritar Sif Sigmarsdóttir í pistli sínum í Fréttablaði laugardagsins. Hún segir okkur svo frá því að raunvísindin hafi nú tekið til við að svara þeim spurningum sem trúin sat áður ein að.

Við lestur greinarinnar varð mér hugsað til þekktra rökræðna í breska ríkisútvarpinu frá því um miðja síðustu öld. Heimspekingarnir Bertrand Russell og Fred­erick Copleston ræddu þar um trúmál. Russell var á móti guðstrú en Copleston kom henni til varnar. Að lokinni þessari rimmu spurðu pistlahöfundar þess tíma sig að því, hvor þeirra hefði haft betur. Niðurstaðan var áhugaverð. Copleston var talinn hafa haft yfirhöndina þegar kom að siðferði og mannlegri breytni. „Ef Guð er dauður er allt leyfilegt,“ sagði Dostojevskí. Hann reyndist þar sannspár um heljarstefnur 20. aldarinnar þar sem valdhafar lutu hvorki valdi að neðan né ofan. Á hinn bóginn átti verjandi guðstrúar engin svör við þeirri rökréttu ályktun hins guðlausa sem var einhvern veginn á þessa leið: Hvernig getur heimur, sem á sér ekkert upphaf, átt einhvern skapara? Taramm.

Guðfræðingurinn Georges Le­maître hafði reyndar áður sett fram kenninguna um Miklahvell (sem sumir virðast nú halda fram að sé ósamrýmanleg guðstrú í hvaða formi sem er) en sú kenning hafði þá ekki hlotið almenna viðurkenningu. Russell taldi eins og flestir aðrir á þeim tíma að heimurinn ætti sér ekkert upphaf.

Og nú deilir Sif með okkur ýmsum tilvistarlegum yfirlýsingum vísindamanna úr röðum guðleysingja sem ganga út á það að dauðinn sé endalok alls og að sálin sé ekki til. Hver veit nema að um síðir muni sitthvað koma í ljós sem rýrir þá ályktun þeirra? Það er þó ekki víst. Af hverju? Jú, vegna þess að þegar þeir setja þessar vangaveltur fram í nafni raunvísinda fara þeir út fyrir verksvið sitt. Immanuel Kant kallaði það tálsýnir skynseminnar að ætla sér að skilja Guð, eilífðina og sálina. Lífið á sér fleiri víddir en þær sem vegnar verða og mældar.

Ársæll Arnarson, prófessor í sálfræði við HÍ, ræðir þessi mál í lok bókar sinnar, Síðustu dagar sálarinnar. Honum er það hugleikið hvernig fólk virðist leggja hreinan átrúnað á vísindalegar kenningar, þótt þær séu eðli málsins samkvæmt settar fram í krafti þess að um síðir kunni þær að verða afsannaðar. Ársæll segir: „Þannig virðist fólk jafnvel ímynda sér að taugavísindin hafi fundið heilasvæði sem fyrrum var talið að innihéldi sálina og að komið hafi í ljós að þar var bara efni en engin merki um andleg fyrirbæri. Slíkur átrúnaður er bæði rangur og getur hreinlega haft í för með sér óþarfa þröngsýni og tilfinningalega vanlíðan“

Við sem erum hluti af þjóðkirkjunni höfum ekki áhuga á því að fella stóra dóma. Þjóðkirkjan er ekki dómstóll, hún er líkari torgi þar sem fólk er velkomið með sjónarmið sín og spurningar. Trúin er blessunarlega nógu djúp og breið til að skapa svigrúm fyrir samtal fólks sem lætur sig varða lífið og tilveruna. Trú og vísindi eru engar andstæður, en vísindatrú kann að vera í andstöðu við hvort tveggja, vísindi og trú.

Höfundur er sóknarprestur í Neskirkju




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×