Innlent

Á­fram í gæslu­varð­haldi vegna „Skák­sam­bands­málsins“

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn er í haldi í fangelsinu á Hólmsheiði.
Maðurinn er í haldi í fangelsinu á Hólmsheiði. Vísir
Sigurður Ingi Kristinsson var í morgun úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 18. apríl næstkomandi á grundvelli almannahagsmuna.

Sigurður Ingi er grunaður um aðild að svonefndu Skáksambandsmáli þar sem fíkniefni, falin í skákmunum, voru send í húsakynni Skáksambands Íslands í Skeifunni fyrr í vetur.

Hann er eiginmaður Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur sem hefur legið alvarlega slösuð á sjúkrahúsi á Spáni frá því í janúar síðastliðnum. Sigurður og Sunna Elvíra bjuggu á Málaga á Spáni en Sigurður var handtekinn þar um miðjan janúar grunaður um alvarlegt brot gegn Sunnu Elvíru þegar hún slasaðist alvarlega eftir fall á heimili þeirra 17. janúar síðastliðinn.

Honum var sleppt úr haldi þar ytra að loknum yfirheyrslum og svo handtekinn við komuna hingað til lands og hefur verið í gæsluvarðhaldi frá þeim tíma.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að áframhaldandi gæsluvarðhaldskrafa yfir Sigurði hefði verið samþykkt í héraðsdómi í morgun á grundvelli almannahagsmuna.

Hún segir að lögreglu vera að leggja lokahönd á rannsókn málsins og að það verði fljótlega sent til embættis héraðssaksóknara sem mun taka ákvörðun um hvort ákæra verði gefin út í málinu.

Í upphafi voru fjórir í haldi vegna málsins en Sigurður situr nú einn í haldi vegna rannsóknar þessa máls.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×