„Hún var tilbúin að hjálpa okkur ef eitthvað slíkt hefði komið upp. Við höfum alveg verið að tala saman. Dugnaðarforkur. En að við höfum verið að segja neitt já eða nei, það er ekki,“ segir Inga í samtali við Vísi.
Gerði engar hosur grænar
Hún er þar að vísa til fréttar sem sjá má á EiríkurJónsson punktur is, sem Vísir spurði hana út í. Þar sem segir að Sveinbjörgu hafi ekki tekist að hrífa Ingu og að hún hafi fengið „endanlegt NEI síðastliðinn mánudag en borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina gekk hart eftir því að verða útnefnd oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.“Þetta upplegg segir Inga hins vegar dómadags rugl og þvætting.
„Hún hefur ekki verið að gera neinar hosur grænar, við höfum bara talað við hana eins og marga aðra. Þetta er svo alrangt, ég hef aldrei sagt nei við hana blessaða manneskjuna, þessa elskulegu konu. Ég hef oft orðið hissa og veit að það er erfitt að vera blaðamaður og búa eitthvað til, en hamingjan góða.“
Sveinbjörg stjarna síðustu borgarstjórnarkosninga
Þetta er sem sagt algert bull?„Já, þetta er bull. Ég hef oft talað við Sveinbjörgu Birnu og ég kann afskaplega vel við þessa duglegu og skeleggu konu en hún er ekki oddviti okkar í borginni,“ segir Inga og bendir á að fyrir liggi glæsilegur listi Flokks fólksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.
En, Sveinbjörg Birna var ótvírætt stjarna síðustu borgarstjórnarkosninga?
„Já, hún var það.“