Innlent

Styttist í að Sunna komi heim frá Spáni

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Sunna Elvira Þorkelsdóttir hefur legið á spítala á Spáni.
Sunna Elvira Þorkelsdóttir hefur legið á spítala á Spáni.
„Það er bara núna á allra næstu dögum,“ segir Páll Kristjánsson, lögmaður Sunnu Elviru Þorkelsdóttur sem er laus úr farbanni og hyggur nú á heimkomu eftir að hafa lamast í slysi á heimili sínu í Malaga á Spáni í janúar.

„Það er ekki búið að negla niður dagsetninguna. Fjölskyldan fór út til hennar yfir páskahátíðina og það er bara verið að gera ráðstafanir með flug og annað slíkt. Mér skilst að það sé sjúkraflug á bið, búið að borga fyrir það, þannig að hún ætti að komast heim á allra næstu dögum,“ segir Páll. Greint var frá því í síðustu viku að farbanni sem Sunna hefur sætt undanfarnar vikur hefði verið aflétt. Sunna féll niður af svölum á heimili sínu í 17. janúar síðastliðinn með þeim afleiðingum að hún hlaut mænuskaða og er lömuð fyrir neðan brjóst.

Eiginmaður hennar, Sigurður Kristinsson, hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann kom til Íslands eftir slysið, vegna gruns um aðild að fíkniefnainnflutningi. Í kjölfar þess máls var Sunna Elvira úrskurðuð í farbann úti á Spáni.

Aðspurður hvort Sunna sé komin með vegabréfið sitt og annað sem hún var svipt vegna farbannsmálsins segir Páll svo vera.

„Hún er komin með allt sem hún þarf, að mér skilst.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×