Erlent

Staðfesta vilja Norður-Kóreu til viðræðna um kjarnorkuafvopnun

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísir/Getty
Embættismenn frá Norður-Kóreu hafa staðfest það við embættismenn ríkisstjórnar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að ríkið sé til í viðræður um mögulega kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans.

Reuters greinir frá því að embættismenn ríkjanna tveggja hafi átt í leynilegum viðræðum að undanförnu í tilefni þess að stefnt er að því að Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fundi með Trump.

Hingað til hafa samskipti ríkjanna að miklu leyti farið fram með milligöngu Suður-Kóreu en það voru embættismenn frá Suður-Kóreu sem komu þeim skilaboðum á framfæri við Trump að Kim Jong-un væri viljugur til þess að funda með Trump.

Í frétt Washington Post segir að staðfesting þess efnis beint frá Norður-Kóreu að möguleg afkjarnorkuvæðing verði til viðræðu á fundinum sé merki um það að Kim Jong-un sé í raun og veru reiðubúinn til þess að funda með Trump. 

Ekkert hefur verið gefið upp um það hvenær fundurinn muni fara fram, né hvar en Trump er sagður vilja að fundurinn verði haldinn fyrir lok næsta mánaðar.

Norður-Kórea hefur undanfarin ár þróað kjarnorkuvopn. Í september á síðasta ári sprengdi ríkið öflugustu sprengju sem ríkið hefur sprengt til þessa. Hefur þróun slíkra vopna verið liður í því að halda andstæðingum í hæfilegri fjarlægð.


Tengdar fréttir

Kim heitir afvopnun í Kínaheimsókn

Fyrsta heimsókn einræðisherra Norður-Kóreu var til Kína. Kim sagði ástandið á Kóreuskaga fara batnandi. Sagður koma sér fyrir undir verndarvæng Kínverja. Kínverjar segja fundinn marka kaflaskil.

Kim lofar að hætta kjarnorkuframleiðslu

Utanríkisráðherra Suður-Kóreu segir að Kim Jong-un, leiðtogi grannríkis þeirra í norðri, hafi heitið því að hætta kjarnorkuframleiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×