Kúabændur í Skagafirði eru um fimmtíu talsins. Um tuttugu þeirra standa nú í fjósbyggingum, eru að undirbúa slíkt, eða nýbúnir að reisa fjós. Þeirra á meðal er bóndinn á Páfastöðum. Kunnugir telja að þar sé fullkomnasta fjós Skagafjarðar og jafnvel á öllu landinu.

Hann þarf heldur ekki að moka flórinn lengur. Sérstakur róbót sér um að halda fjósinu snyrtilegu.
En þetta kostar sitt; 230 milljónir króna kostaði nýju fjósið á Páfastöðum með öllu, segir bóndinn. Hugmyndafræðin er að kúnum líði vel í fjósinu, þannig mjólka þær líka meira, segir hann.

„Það var kominn líka tími á endurnýjun. Við vorum með gömul fjós. Eins og hérna. Þetta voru 30-40-50 ára gömul fjós og það var kominn tími á endurnýjun. Ef maður ætlar að vera í þessu þá þarf maður að endurnýja framleiðsluaðstöðuna, eins og allt annað,” segir bóndinn.
Við fjöllum nánar um þetta veglega fjós í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 klukkan 19.25 annaðkvöld, mánudagskvöld.
Hér má sjá myndir úr nýja fjósinu og viðtal við Sigurð bónda: