Innlent

Enn mikill hiti í Miðhrauni

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá rannsókn lögreglu í Miðhrauni í dag.
Frá rannsókn lögreglu í Miðhrauni í dag. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á eldsupptökum í iðnaðarhúsnæði við Miðhraun í Garðabæ á fimmtudagsmorgun er í fullum gangi, en brunavettvangur var afhentur lögreglu á föstudagskvöld. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu en þar segir að af öryggissjónarmiðum hafi verið beðið með vettvangsrannsókn til mánudags svo vettvangur yrði kólnaður og hreinsun vegna slökkvistarfs að fullum lokið.

Í dag hafa því brunasérfræðingar tæknideildar lögreglu verið við eldsupptakarannsókn á vettvangi ásamt brunaverkfræðingi frá Mannvirkjastofnun og sérfræðingum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Í ljós hefur komið að enn er mikill hiti á því svæði sem rannsóknin beinist að, en unnið er að kælingu þess svæðis og óljóst hvernig rannsókninni muni miða áfram í dag. Lögreglan segir að því sé ekki hægt að segja til um það á þessu stigi hvenær rannsókninni muni ljúka.

Lögreglan segir að unnið hafi verið sleitulaust að málinu frá því eldurinn kom upp á fimmtudag. Í því fólst m.a. að afla ganga úr eftirlitsmyndavélum á og við vettvanginn og með skýrslutökum hjá vitnum og viðbragðsaðilum. Á föstudag var haldinn stöðufundur með fulltrúum lögreglu, slökkviliðs og Mannvirkjastofnunar og farið yfir fyrirliggjandi gögn. Á fundinum voru enn fremur teknar ákvarðanir um hvað mætti rífa á brunavettvangi og hverju þyrfti að hlífa ef unnt væri m.t.t. rannsóknarhagsmuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×