Erlent

Erdogan vill ekkert með Frakka hafa

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. Vísir/AFP
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, gagnrýndi í gær harðlega tillögu Frakka um milligöngu í friðarviðræðum á milli Tyrkja og SDF, hersveita Kúrda í norðurhluta Sýrlands. Tyrkir hafa undanfarið ráðist inn á svæði á valdi Kúrda og meðal annars tekið Afrin-hérað.

„Við þurfum engan sáttasemjara. Síðan hvenær hafa Tyrkir tamið sér að setjast við borðið og ræða málin við fulltrúa hryðjuverkasamtaka? Af hverju eruð þið að tala um friðarviðræður Tyrkja við hryðjuverkasamtök?“ spurði Erdogan blaðamann NTV í gær.

YPG, þjóðvarðsveit Kúrda, er stærsti armur SDF. Tyrkir líta svo á að YPG sé hernaðararmur hins útlæga Verkamannaflokks Kúrda (PKK), sem þeir hafa barist við í áratugaraðir og bæði NATO og Evrópusambandið flokka sem hryðjuverkasamtök. Hvorki NATO né ESB deila þó þeirri sýn með Tyrkjum að YPG sé hluti PKK.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, bauðst til þess á skírdag að hafa milligöngu um viðræður þegar fulltrúar SDF funduðu með honum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×