Innlent

Langflestir vilja Dag í borgarstjórastólinn

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. vísir/ernir
Flestir Reykvíkingar vilja að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, verði borgarstjóri eftir sveitastjórnarkosningar sem haldnar verða þann 26. maí næstkomandi. Næstflestir kjósa Eyþór Arnalds, leiðtoga Sjálfstæðismanna í borginni, að því er fram kemur í niðurstöðum skoðanakönnunar Morgunblaðsins og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

46,4 prósent aðspurðra sögðust vilja sjá Dag B. Eggertsson, sem fer fyrir Samfylkingunni, áfram í sæti borgarstjóra. Næstflestir, eða 29,5 prósent vildu fá Eyþór Arnalds, sem er í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins, í borgarstjórastólinn. Næstar á eftir Degi og Eyþóri voru þær Vigdís Hauksdóttir með 7,1 prósent og Líf Magneudóttir með 6,4 prósent en þær skipa fyrstu sæti fyrir Miðflokkinn annars vegar og Vinstri græn hins vegar.

Þá kemur fram í könnuninni að Eyþór sé mun vinsælli meðal karla en kvenna, 34,9% karla vilja hann sem borg­ar­stjóra en 22,6% kvenna. Dagur nýtur aftur á móti mun meiri stuðnings kvenna en karla, með 49,8 prósent fylgi á móti 43,8 prósentum.

Þá nýtur Dagur meiri vinsælda í vesturhluta borgarinnar en Eyþór sækir stuðning í úthverfin austar í Reykjavík.

Könnunin var gerð dagana 21.-27. mars.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×