Körfubolti

Sigtryggur Arnar: Við vanmetum ekki neinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigtryggur Arnar Björnsson var frábær hjá Tindastóli í kvöld.
Sigtryggur Arnar Björnsson var frábær hjá Tindastóli í kvöld. Vísir/Eyþór
„Ég bjóst við öðrum spennandi leik eins og heima hjá okkur. En við tókum þetta bara í seinni hluta leiksins. Þá sprungum við út,“ sagði Sigtryggur Arnar Björnsson sem átti frábæran leik fyrir Tindastól í sigrinum á Grindavík í kvöld. Stólarnir eru komnir í 2-0 í einvíginu og geta tryggt sæti í undanúrslitum með sigri í þriðja leik liðanna á föstudag.

 „Við erum að spila geggjaða liðsvörn og geggjaða sókn saman sem lið. Við erum keyra á körfuna, menn falla og við finnum opna manninn. Svo setjum við opnu skotin,“ bætti Sigtryggur Arnar við.

Hann hefur átt við meiðsli að stríða fyrir úrslitakeppnina og var jafnvel búist við því að hann gæti ekki leikið í upphafi hennar.

„Mér líður vel. Ég bjóst við að vera smá ryðgaður en það er ekki að sjá, allavega ekki hingað til. Þetta er fínt. Ég get spilað í gegnum þetta en ég sé alltaf hvernig ég er fyrir hvern leik í rauninni.“

Tindastóll getur tryggt sér sigur í einvíginu með sigri á Sauðárkróki á föstudag.

„Það verður hörkuleikur. Þeir vilja ekki láta sópa sér út og þeir mæta brjálaðir til leiks og reyna stela leik á okkar heimavelli,“ bætti Sigtryggur Arnar við og sagði að lokum enga hættu vera á vanmati í herbúðum Tindastóls.

„Alls ekki, við vanmetum ekki neinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×