Innlent

„Við erum algjörlega ósammála“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá samstöðufundi Ljósmæðra sem efnt var til klukkan 13:45 fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara í dag.
Frá samstöðufundi Ljósmæðra sem efnt var til klukkan 13:45 fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara í dag. Vísir/Rakel Ósk
Ljósmæðrafélag Íslands efndi til samstöðufundar fyrir utan húsnæði ríkissáttasemjara nú síðdegis en klukkan 14 hófst fundur í kjaradeilu félagsins og samninganefndar ríkisins. Fyrir hádegi sendi Ljósmæðrafélagið Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra stuðningsyfirlýsingu við baráttu ljósmæðra, undirritaða af yfir 5000 manns.

„Þetta er alveg stál í stál, við erum algjörlega ósammála, félagið og samninganefnd ríkisins,“ sagði Áslaug Valsdóttir, formaður Ljósmæðrafélags Íslands, í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Hún sagði samninganefnd ríkisins enn fremur bjóða ljósmæðrum sama samning og samið var um við önnur félög BHM á dögunum.

„Við mátum það svo í Ljósmæðrafélaginu að þetta væri okkur ekki til hagsbóta, að þetta væri ekki góður samningur fyrir okkur. Þess vegna höfum við ekki getað fallist á hann.“

Sjá einnig: Stál í stál í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins

Eitt helsta baráttuefni Ljósmæðrafélagsins í kjaraviðræðunum er að búa svo um hnútana að ljósmæður lækki ekki í launum þegar þær bæta við sig tveggja ára menntun við hjúkrunarfræðina, líkt og raunin er hjá mjög mörgum þeirra í dag.

„Það er það sem er nefnilega alveg galið,” sagði Áslaug.

Stuðningsmenn ljósmæðra mættu fylktu liði með barnavagna.Vísir/Rakel Ósk
Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í lok ágúst er úrskurður gerðardóms um kjör þeirra rann út. Kom úrskurðurinn í kjölfar verkfalls sem ljósmæður fóru í vorið 2015. Fundurinn í dag er sá fjórði sem haldinn er í deilu ljósmæðra og ríkisins.

Glatt var á hjalla á samstöðufundinum þótt tilefnið væri á alvarlegu nótunum.Vísir/Rakel Ósk

Tengdar fréttir

Stál í stál í kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins

Ljósmæður hafa verið samningslausar frá því í lok ágúst er úrskurður gerðardóms um kjör þeirra rann út. Kom úrskurðurinn í kjölfar verkfalls sem ljósmæður fóru í vorið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×