Innlent

Ás­geir nýr upp­lýsinga­full­trúi Land­helgis­gæslunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgeir Erlendsson hefur störf hjá Landhelgisgæslunni þegar líður að sumri.
Ásgeir Erlendsson hefur störf hjá Landhelgisgæslunni þegar líður að sumri. Vísir
Ásgeir Erlendsson hefur verið ráðinn upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Þetta staðfestir Svanhildur Sverrisdóttir, mannauðsstjóri hjá Gæslunni, við Vísi. Ásgeir tekur við stöðunni af Sveini Guðmarssyni sem sinnti henni í rúmt ár. Sveinn tók nýlega við sem upplýsingafulltrúi í utanríkisráðuneytinu.

Ásgeir hefur frá árinu 2011 starfað við dagskrárgerð og sem fréttamaður á Stöð 2, samhliða því sem hann hefur haft umsjón með og framleitt sjónvarpsefni. Áður starfaði hann meðal annars sem íþróttafréttamaður og við dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu.

Alls sóttu 79 umsækjendur um starfið en eftir að fjölmiðlar óskuðu nafnabirtingar drógu 25 aðilar umsókn sína til baka.

„Ég er mjög spenntur fyrir komandi tímum. Ég fékk að kynnast störfum Gæslunnar við gerð sjónvarpsþáttanna um Landhelgisgæsluna sem sýndir voru á Stöð 2 í haust. Þar heillaðist ég af starfseminni og starfsfólkinu sem vinnur frábært starf,“ segir Ásgeir í samtali við Vísi. 

„Árin á Stöð 2 hafa verið ævintýri líkust og ég á eftir að sakna allra samstarfsfélaganna þar. Ég mun ekki kveðja þá alveg strax en ég verð næstu vikur áfram einn af umsjónarmönnum Íslands í dag áður en ég hef störf hjá Gæslunni. Nú er komið að nýjum kafla í mínu lífi ég er ánægður með að hann verði skrifaður hjá Landhelgisgæslu Íslands.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×