Körfubolti

Hlynur var „kýldur niður:“ Það var tekið upp eitthvað „show“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hlynur Bæringsson.
Hlynur Bæringsson. Vísir/Andri Marinó
Mikill hiti var í mönnum í Seljaskóla í kvöld þar sem ÍR og Stjarnan mættust í þriðja leik liðanna í 8-liða úrslitum Domino’s deildar karla. ÍR fór með þriggja stiga sigur, 67-64, eftir háspennu leik. Mikil harka var í leiknum og í fyrsta leikhluta átti sér stað atvik þar sem Ryan Taylor, leikmaður ÍR, virðist slá Hlyn Bæringsson hjá Stjörnunni í höfuðið.

„Ég verð frekar að spyrja þig, þú ert líklega búin að sjá það aftur,“ sagði Hlynur aðspurður hvað honum fyndist um atvikið eftir leik. „Þeir segja að þetta hafi litið mjög illa út, ég var bara kýldur, sleginn niður.“

„Það þarf svolítið að taka á því og mér fannst öll atburðarásin eftir það líka bara mjög slæm. Viðmót og allt, mér fannst það mjög slæmt.“

Stjörnubekkurinn fékk dæmda á sig tæknivillu eftir mótmæli, en Taylor fékk óíþróttamannslega villu fyrir brotið. Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, vildi sjá Taylor vikið úr húsi fyrir brotið.

„Við fengum tæknivillu eftir þetta, á bekkinn, en hún var samt eiginlega á mig. Það var bara tekið upp eitthvað „show.““

„Ef þetta er viljandi, sem ég veit ekkert um og ég ætla ekkert að segja til um það núna, þá snýst það um að vera góður dómari og bregðast almennilega við því. Það er mjög erfitt og ég skil það alveg.“

„Ég var reiður og fékk tæknivilluna, en ég blótaði þessu ekkert eða var neitt dónalegur við þá,“ sagði Hlynur Bæringsson.

Stjarnan er nú 2-1 undir í einvígi liðanna og þarf að sækja sigur á heimavelli sínum í Garðabæ á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×