Innlent

Ákærð fyrir líflátshótun í garð þjálfara

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Maðurinn hefur starfað sem Bocciaþjálfari um árabil á Akureyri. Fréttablaðið/Pjetur
Maðurinn hefur starfað sem Bocciaþjálfari um árabil á Akureyri. Fréttablaðið/Pjetur
Gefin hefur verið út ákæra á hendur Guðrúnu Karítas Garðarsdóttur fyrir líflátshótun gegn manni sem grunaður er um kynferðisbrot gegn þroskaskertum konum.

Maðurinn, sem hefur um árabil starfað sem boccia-þjálfari á Akureyri, mun hafa stofnað til náinna vináttusambanda við kvenkyns iðkendur íþróttarinnar og nýtt sér þær kynferðislega í krafti yfirburðastöðu sinnar gagnvart þeim. Hefur hann til dæmis útvegað þeim húsnæði til búsetu og þannig tryggt sér aðgang að þeim, en þær á sama tíma rofið öll tengsl við fjölskyldu sína. Kæra var lögð fram á hendur manninum árið 2015 og er rannsókn lokið hjá lögreglu og hefur málinu verið vísað til héraðssaksóknara. Ákvörðun um ákæru á hendur manninum liggur ekki fyrir.

Þegar Guðrún varð þess áskynja í ágúst síðastliðnum að maðurinn var að reyna að setja sig í samband við dóttur hennar, sem er þroskaskert og æfði um tíma boccia undir handleiðslu mannsins, brást hún ókvæða við og þusti inn á gólf vinnustaðar hans og hafði í hótunum við hann í vitna viðurvist.

Henni var birt ákæra í síðustu viku þar sem henni er gefið að sök að hafa sagt: „Ég skal drepa þig helvítið þitt,“ og „jú víst, ég get látið drepa þig“. Síðari orðin er Guðrún sögð hafa haft uppi þegar brotaþoli lýsti efasemdum um hæfni hennar til manndrápa. Sjálf segist Guðrún ekki hafa sagt síðari orðin en gengst við því að hafa hótað manninum vegna samskipta hans við dóttur hennar.

„Þetta eru veruleg vonbrigði og ég var bara slegin þegar mér var tilkynnt um ákæruna,“ segir Guðrún og lýsir furðu og vonbrigðum með að hún sé ákærð á undan manninum sem hefur að hennar sögn gengið laus og haldið uppteknum hætti allt frá því að grunur vaknaði um brot árið 2014. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×