Erlent

Segir Rússa ekki komna í öngstræti

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Dmítrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta.
Dmítrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta. Nordicphotos/AFP
Þrátt fyrir að rúmlega tuttugu ríki hafi vísað rússneskum erindrekum úr landi eru Rússar ekki í öngstræti. Þetta sagði Dmítrí Peskov, talsmaður Rússlandsforseta, í gær.

Rússar hafa mætt mótbyr eftir að ráðist var á gagnnjósnarann fyrrverandi Sergei Skrípal og dóttur hans með taugaeitri í Salisbury í Bretlandi fyrr í mars. Er Rússum kennt um árásina en þeir neita sök.

„Ég held við séum ekki komin í öngstræti. Tuttugu eða þrjátíu ríki eru bara hluti af heiminum,“ hafði Interfax, stærsti einkarekni miðill Rússlands, eftir Peskov.

Talsmaðurinn sagði enn fremur að á meðal þeirra ríkja sem tóku afstöðu með Bretum væru ríki sem hefðu þá skoðun að málstaður Breta væri veikur. Sönnunargögnin væru ekki nægilega mikil til þess að saka Rússa um svo alvarlegan glæp.

Svartfellingar bættust í gær í hóp ríkja sem vísa Rússum úr landi. Svartfellski miðillinn Cafe del Montenegro greindi frá því að einum erindreka hefði verið vísað úr landi.

Samskipti Rússlands og Svartfjallalands hafa verið einkar stirð frá því rússneskir þjóðernissinnar voru sakaðir um áform um að ráða Milo Djukanovic forsætisráðherra af dögum árið 2016.




Tengdar fréttir

NATO vísar Rússum á brott

„Þetta sendir skýr skilaboð til Rússlands um að óásættanleg og hættuleg hegðun hefur afleiðingar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×