„Ég vil að hlutir línunnar hafi margþætt notagildi, yfirleitt tvo notkunarmöguleika, jafnvel þrjá. Það er umhverfisvænna vegna þess að í staðinn fyrir að kaupa tvo hluti þá getur neytandinn keypt einn hlut og nýtt í eitthvað tvennt eða meira.“
Ólína hefur í gegnum tíðina mikið pælt í umhverfisvernd og margþættu notagildi. „Ég geng mikið út frá umhverfissjónarmiði, tilgangi og upplifun í minni hönnun. Það er svo rosalega mikið til af lífsstílsvörum í dag þannig að fyrir mér er markmiðið að hönnunin þjóni einhverjum tilgangi. Það sem við erum að leika okkur með í þessari vörulínu er þátttaka neytandans, að hann geti sjálfur leikið sér með útfærslur á hönnuninni.“

Eins og áður sagði er vörulínan samstarf Ólínu og hönnunarfyrirtækisins FÓLKs. Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi FÓLKs, er spennt fyrir að koma línunni Lifandi hlutir á markað.
„Okkar markmið er að vinna með íslenskum hönnuðum. Við hjá FÓLKi sjáum mikla grósku í íslenskri hönnun. Það virðist þó sem hér á landi skorti hönnuði fleiri samstarfsaðila til að taka vöruþróunarferlið alla leið og koma hönnun sinni á markað. Við erum að sérhæfa okkur í því,“ útskýrir Ragna Sara.
Hún mælir með að hönnunarunnendur kíki á vörulínuna Lifandi hluti sem verður sýnd á samsýningu EPAL á HönnunarMars, sem heitir Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd, og einnig í Geysir Heima.