Viðskipti innlent

Óbreyttir stýrivextir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri. VÍSIR/ANTON BRINK
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum. Meginvextir bankans, það er vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því áfram 4,25 prósent að því er segir í tilkynningu.

„Samkvæmt þjóðhagsreikningum sem Hagstofa Íslands birti 9. mars sl. var hagvöxtur 3,6% í fyrra, sem er nálægt því sem Seðlabankinn hafði gert ráð fyrir í febrúarhefti Peningamála.

Verðbólga í febrúar var 2,3% og hafði minnkað úr 2,4% í janúar.  Undirliggjandi verðbólga hjaðnaði einnig lítillega. Áfram hefur dregið úr árshækkun húsnæðisverðs og áhrif hærra gengis krónunnar hafa dvínað. Líklegt er að þessi þróun haldi áfram á næstunni. Gengi krónunnar hefur hækkað frá síðasta fundi peningastefnunefndar og gjaldeyrismarkaðurinn hefur áfram verið í ágætu jafnvægi. Verðbólguhorfur hafa lítið breyst frá síðasta fundi nefndarinnar en verðbólguvæntingar virðast hafa hækkað lítillega. Of snemmt er þó að álykta um hvort kjölfesta þeirra við verðbólgumarkmið bankans hafi veikst.

Hátt raungengi hefur hægt á vexti útflutnings og horfur eru á minnkandi spennu í þjóðarbúskapnum. Eigi að síður er áfram þörf fyrir peningalegt aðhald til að halda aftur af örum vexti innlendrar eftirspurnar. Nýleg ákvörðun um að segja ekki upp kjarasamningum dregur úr hættu á ósjálfbærum launahækkunum til skamms tíma litið en undirliggjandi spenna á vinnumarkaði er enn til staðar,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×