Erlent

Svar Rússa hafi ekki áhrif á staðreyndir málsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á vorþingi Íhaldsflokksins í dag.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, á vorþingi Íhaldsflokksins í dag. Vísir/AFP
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, segir ríkisstjórnina hafa búist við því að Rússar vísuðu breskum erindrekum úr landi. Þetta kom fram í svari May við yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins sem send var út í morgun.

„Svar Rússa breytir ekki staðreyndum málsins,“ sagði May í ræðu sinni á vorþingi Íhaldsflokksins í dag.

„Við umberum ekki ógn af hendi rússnesku ríkisstjórnarinnar við líf breskra ríkisborgara og annarra á breskri grundu.“ Þá sagðist hún ætla að ráðfæra sig við bandamenn sína varðandi næstu skref í málinu.

Rússar lýstu því yfir í dag að þeir hyggist vísa 23 breskum erindrekum úr landi. Um er að ræða svar Rússlands við brottvísun 23 rússneskra erindreka úr Bretlandi í kjölfar taugaeitursárásarinnar gegn rússneskum njósnara og dóttur hans í Bretlandi. Bretar saka Rússa um að standa að baki árásinni.

Í yfirlýsingunni sagði að bresku erindrekunum verði vísað úr landi innan viku. Auk þess verður breska ráðgjafarnefndin í Rússlandi lögð niður og leyfi til opnunar á ræðismannsskrifstofu Breta í Sankti Pétursborg afturkallað. Breska ráðgjafarnefndin hefur lýst yfir „gríðarlegum vonbrigðum“ með ákvörðun Rússa.


Tengdar fréttir

Efast ekki um ásakanirnar í garð Rússa

Atlantshafsbandalagið styður þétt við bakið á Bretum í Skrípal-deilunni. Jeremy Corbyn efast enn og nýtur ekki stuðnings tuga þingmanna flokks síns. Rússar hafa ekki áhyggjur af alþjóðlegum stuðningi við Breta.

Rússar vísa 23 breskum erindrekum úr landi

Um er að ræða svar Rússlands við brottvísun 23 rússneskra erindreka úr Bretlandi í kjölfar taugaeiturssárásarinnar gegn rússneskum njósnara og dóttur hans í Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×