Frestur til að áfrýja úrskurðum úrskurðarnefndar þjóðkirkjunnar í málunum fimm gegn Ólafi Jóhannssyni, sóknarpresti í Grensáskirkju, rennur út í dag. Verði ekki áfrýjað í málum hans mun hann að öllum líkindum taka til starfa aftur eftir leyfi, strax í þessari viku.
Fimm konur kærðu séra Ólaf til úrskurðarnefndar Þjóðkirkjunnar á haustmánuðum en biskup sendi hann fyrst í leyfi vegna málanna í maí í fyrra.
Samkvæmt ákvörðun biskups er guðsmaðurinn í leyfi á meðan mál gegn honum eru í vinnslu á kirkjulegum vettvangi.
Einar Gautur Steingrímsson, lögmaður Ólafs, segir að þar sem hann sé enn skipaður sóknarprestur í Grensásprestakalli muni hann sinna skyldum sínum og mæta til vinnu um leið og leyfi hans lýkur.
