Erlent

Kim lofar að hætta kjarnorkuframleiðslu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Kim Jong-un er sagður hafa talað afdráttarlaust um að ríki hans myndi stöðva kjarnorkuáætlun sína.
Kim Jong-un er sagður hafa talað afdráttarlaust um að ríki hans myndi stöðva kjarnorkuáætlun sína. Vísir/Getty
Utanríkisráðherra Suður-Kóreu segir að Kim Jong-un, leiðtogi grannríkis þeirra í norðri, hafi heitið því að hætta kjarnorkuframleiðslu ríkisins. Haft er eftir ráðherranum, Kang Kyung-wha, á vef Guardian að Suður-Kórea hafi beðið um skýra staðfestingu frá stjórnvöldum Norður-Kóreu um að ríkið myndi stöðva kjarnorkumálaáætlun sína og segir utanríkisráðherrann að Kim sjálfur hafi veitt hana.

Tíðindin eru sögð góður undanfari fyrir hugsanlegan fund Norður-Kóreu og Bandaríkjamanna í maí. Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði fyrir rúmlega viku síðan að hann ætlaði sér að setjast niður með Kim Jong-un eftir að suður-kóreskir embættismenn lýstu því yfir að leiðtogi hins einangraða ríkis væri opinn fyrir því að hætta þróun kjarnavopna.

Þrátt fyrir að mikið hafi verið rætt og ritað um fund Bandaríkjanna og Norður-Kóreu hefur síðarnefnda ríkið ekkert tjáð sig opinberlega um málið. Því er ekki enn hægt að fullyrða með vissu hvort af honum verði.

Fulltrúar Norður-Kóreu hafa þó verið á faraldsfæti síðustu daga. Erindreki ríkisins átti til að mynda fundi í Finnlandi með Suður-Kóreumönnum og fulltrúum Bandaríkjastjórnar í gærkvöldi. Fyrsta dagskrármál þess fundar er sagt hafa verið fundur Kim og Trump í maí.

Að sama skapi var greint frá því fyrir helgi að sendinefnd Norður-Kóreu væri stödd í Stokkhólmi. Þar ræddu sænsk yfirvöld við utanríkisráðherra Norður-Kóreu um lausn þriggja Bandaríkjamanna.  Í frétt á vef sænska utanríkisráðuneytisins segir hins vegar að viðræður Svíþjóðar og Norður-Kóreu hafi að mestu snúist um stöðu mála á Kóreu-skaganum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×