Innlent

Ákærður vegna stunguárásar á Austurvelli

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað á Austurvelli 3. desember síðastliðinn.
Árásin átti sér stað á Austurvelli 3. desember síðastliðinn. Vísir/GVA
Í dag var gefin út ákæra á hendur íslenskum karlmanni á þrítugsaldri vegna hnífstunguárásar á Austurvelli. Ólaf­ur Þór Hauks­son héraðssak­sókn­ari staðfesti þetta í samtali við Vísi en RÚV sagði fyrst frá. Árásin varð aðfaranótt 3. desember á síðasta ári en Klevis Sula lést af stungusárum sínum viku síðar, aðfaranótt 8. desember. Vinur hans sem var einnig stunginn í árásinni hlaut minni áverka.  

Vitnisburður vinar Klevis, sem einnig var stunginn umrætt kvöld, er á þá leið að Klevis hafi tekið eftir manni sem var grátandi. Hann hafi boðið honum aðstoð en þá verið stunginn með hnífi. Lögregla hefur sagt að stutt samskipti hafi verið milli mannanna áður en árásin átti sér stað.

Sá ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn 3. desember vegna árásarinnar. Ólafur Þór sagði í samtali við Vísi að maðurinn hafi ekki verið viðstaddur í dag og var ekki viss hvort honum hafi nú verið birt ákæran formlega.


Tengdar fréttir

Rannsókn á stunguárás á Austurvelli að ljúka

Íslenskur karlmaður á þrítugsaldri sem grunaður er um manndráp sem rekja má til stunguárásar á Austurvelli þann 3. desember síðastliðinn er enn í gæsluvarðhaldi.

Minnast Klevis Sula við Reykjavíkurtjörn

Kveikt verður á kertum við Reykjavíkurtjörn í minningu Klevis en á Facebook-viðburði minningarathafnarinnar eru allir hvattir til að koma saman og minnast hans og votta fjölskyldu hans samúð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×