Innlent

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kvörtuðu undan fjölmiðlum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins Vísir/Anton
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kvörtuðu undan hlutdrægni fjölmiðla við eftirlitsmenn Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í aðdraganda Alþingiskosninganna í lok október á síðasta ári. RÚV greindi fyrst frá.

Þetta kemur fram í skýrslu eftirlitsmannanna um kosningarnar sem birt var í dag. Er þar meðal annars fjallað um lögbann sem Glitnir HoldCo fékk sett á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media upp úr gögnum úr Glitni. Voru viðskipti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir hrun, í brennidepli umfjöllunarinnar.

Í skýrslu eftirlitsmannanna segir að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, sem ekki eru nafngreindir, hafi kvartað undan „meintri hlutdrægni fjölmiðla sem fjölluðu um lögbannið þannig að það hafi eingöngu átt við fréttaflutning af forsætisráðherranum,“ en Bjarni gegndi þá embætti forsætisráðherra.

Ekki er tekið fram í skýrslunni undan hvaða fjölmiðlum var kvartað en lögbannið var sett á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavik Media upp úr gögnum á Glitni tveimur vikum fyrir alþingiskosningarnar í október.

Í síðasta mánuði var lögbannið dæmt ólöglegt í héraðsdómi. Því hefur verið áfrýjað og er lögbannið áfram í gildi þangað til Landsréttur kveður upp dóm sinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×