Erlent

Suður-kóresk sendinefnd til viðræðna við Kim Jong-un í fyrsta sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Suður-kóreska sendinefndin þegar hún lagði í hann til Norður-Kóreu.
Suður-kóreska sendinefndin þegar hún lagði í hann til Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Norður- og Suður-Kóreumenn reyna nú að hleypa lífi í viðræður á milli nágrannaríkjanna. Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, tekur nú á móti sendinefnd frá Suður-Kóreu en það er í fyrsta skipti sem þarlendir embættismenn hitta hann frá því að hann tók við völdum árið 2011.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að tveir hátt settir embættismenn séu í sendinefnd Suður-Kóreu í Pjongjang í Norður-Kóreu, forstjóri leyniþjónustunnar og þjóðaröryggisráðgjafi forsetans. Til stendur að ræða um skilyrði fyrir viðræðum um kjarnorkuafvopnun norðanmanna en einnig um hvernig hægt sé að koma á viðræðum á milli Bandaríkjastjórnar og ríkisstjórnar Norður-Kóreu.

Þíða hefur verið í samskiptum Norður- og Suður-Kóreu undanfarið í kjölfar vetrarólympíuleika sem haldnir voru í Suður-Kóreu. Löndin tvö tóku meðal annars þátt undir sama fána á leikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×