Innlent

Helmingur borgarbúa er hlynntur Borgarlínunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Borgarlínan verður í sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins með forgang á umferðarljósum,
Borgarlínan verður í sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins með forgang á umferðarljósum, BORGARLINAN.IS
Helmingur þeirra Reykvíkinga sem afstöðu taka í könnun Fréttablaðsins og fretta­bladid.is er hlynntur Borgarlínunni. Fjórðungur er andvígur henni og fjórðungur er hlutlaus í afstöðu sinni.

Þegar svörin eru skoðuð í heild sést að 42 prósent eru hlynnt Borgarlínunni, 21 prósent er andvígt og 21 prósent hlutlaust. Þá eru 13 prósent sem hafa ekki gert upp hug sinn og 4 prósent vilja ekki svara spurningunni.

Á vef Samstaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að Borgarlínukerfið verði tveggja laga. Annars vegar er áformað að þar verði um að ræða Borgarlínuna sjálfa sem tengir saman kjarna sveitarfélaganna með liðvögnum, og hins vegar er það strætisvagnakerfi sem lagað verður að Borgarlínukerfinu og myndar net um þéttbýlið.

Borgarlínan verður í sérrými í gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins með forgang á umferðarljósum, og verður ferðatími með henni því styttri en með öðrum ferðamáta. Tíðni ferða getur farið í fimm til sjö mínútur á annatímum en sums staðar getur hún farið í um tvær mínútur. Biðstöðvar verða yfirbyggðar og upplýsingaskilti verða sett upp sem sýna í rauntíma hvenær næsti vagn kemur, líkt og þekkist víða um heim.

Könnunin var gerð þannig að hringt var í 1.322 manns með lögheimili í Reykjavík þar til náðist í 800 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. febrúar. Svarhlutfallið var 60,5 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir aldri. Spurt var: Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) Borgarlínunni?


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×