Erlent

Taugaeitur notað til að myrða hálfbróður Kim Jong-un

Kjartan Kjartansson skrifar
Tvær konur réðust á Kim Jong-nam á flugvelli í Kúala Lúmpúr í fyrra. Hann lést skömmu síðar.
Tvær konur réðust á Kim Jong-nam á flugvelli í Kúala Lúmpúr í fyrra. Hann lést skömmu síðar. Vísir/Getty
Bandarísk yfirvöld hafa komist að þeirri niðurstöðu að útsendarar Norður-Kóreustjórnar hafi notað taugaeitur til að ráða Kim Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, af dögum í Malasíu í fyrra. Þau ætla að leggja frekari refsiaðgerðir á Norður-Kóreu vegna morðsins.

Tvær konur réðust á Kim á flugvelli í Kúala Lúmpúr og mökuðu VX-taugaeitrinu í andlitið á honum. Þær bera því við að þær hafi talið sig vera að taka þátt í hrekk fyrir sjónvarpsstöð. Þær bíða nú réttarhalda vegna morðsins.

Talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins segir að notkun Norður-Kóreumanna á efnavopnum, þvert á alþjóðlegar reglur, sýni fram á skeytingarleysi stjórnvalda í Pjongjang og að ekki megi umbera að þau hafi nokkurs konar kjarnorkuvopnaáætlun, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Norður-kóresk stjórnvöld hafa neitað því að þau beri ábyrgð á dauða Kim Jong-nam. Kim hafði meðal annars talað gegn fjölskylduveldinu í heimalandinu og skrifaði í bók árið 2012 að hann teldi að Kim Jong-un skorti leiðtogahæfileika.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×