Erlent

Vilja ekki múr á milli Evrópu og Bretlands eftir Brexit

Kjartan Kjartansson skrifar
Tusk virtist ekki vongóður um að markmið ESB og bresku ríkisstjórnarinnar varðandi Brexit væru samrýmanleg.
Tusk virtist ekki vongóður um að markmið ESB og bresku ríkisstjórnarinnar varðandi Brexit væru samrýmanleg. Vísir/AFP
Bretland og ríki Evrópusambandsins munu reka í sundur eftir Brexit en sambandið vill ekki reisa veggi. Þetta sagði Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, þegar hann kynnti drög að stefnu ESB fyrir viðræður um samband þess við Breta eftir Brexit.

Tusk sagði að ESB vildi „metnaðarfullan og þróaðan“ fríverslunarsamning við Breta með engum tollum á vörur. Á hinn bóginn myndi samkomulag ekki gera viðskipti Breta og aðildarríkjanna auðveldari, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Þetta mun gera þau flóknari og kostnaðarsamari fyrir okkur öll en þau eru í dag. Þetta er eðli Brexit,“ sagði Tusk sem varaði Breta við því að markmið ESB væri ekki að láta Brexit ganga vel.

Samkvæmt drögunum sem Tusk kynnti myndu Bretar og ESB halda áfram samvinnu á sviði öryggismála og rannsókna. Tryggt yrði að hömlur yrðu ekki á flugsamgöngum og evrópsk fiskiskip gætu enn sótt á bresk mið.

Leiðtogaráðið segist tilbúið að byrja á viðræðum um fríverslunarsamning sem yrði lokið þegar Bretar ganga formlega úr sambandinu í mars á næsta ári. Tusk útilokaði hins vegar að Bretar gætu sérvalið aðild að tilteknum hlutum innri markaðar ESB.

„Slíkur samningur getur ekki boðið upp á sömu kosti og aðild og hann getur ekki jafnast á við þátttöku í innri markaðinum eða hluta hans,“ segir í stefnulýsingu leiðtogaráðsins.


Tengdar fréttir

Geta ekki allir fengið allt

Á meðal þess sem kom fram í ræðu forsætisráðherrans var að Bretland væri vissulega á leiðinni út af innri markaði Evrópusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×