Innlent

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna „Skáksambandsmálsins“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Maðurinn er í haldi í fangelsinu á Hólmsheiði.
Maðurinn er í haldi í fangelsinu á Hólmsheiði. Vísir
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað Sigurð Kristinsson í áframhaldandi gæsluvarðhald. Hann handtekinn var við heimkomu frá Málaga í lok janúar vegna gruns um aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli.

Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, í samtali við Vísi. Fór lögregla fram á að varðhald yfir Sigurði yrði framlengt um fjórar vikur og féllst héraðsdómur á það. Verður hann í gæsluvarðhaldi til 4. apríl.

Fyrst var greint frá málinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 fyrir um fjórum vikum. Var þá sagt frá því að sérsveit ríkislögreglustjóra hefði farið í aðgerðir í húsnæði Skáksambands Íslands en fíkniefnin komu til landsins í stórum skákmunum. Starfsmenn Skáksambandsins eru þó ekki taldir tengjast málinu. Segir Grímur að rannsókn málsins sé í fullum gangi og miði vel.

Sigurður var handtekinn á Spáni um miðjan janúar vegna gruns um alvarlegt ofbeldisbrot gagnvart konu sinni, Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur. Honum var sleppt úr haldi þar ytra að loknum yfirheyrslum og svo handtekinn við komuna hingað til lands. Sunna Elvíra liggur enn alvarlega slösuð á spítala á Spáni eftir að hafa fallið á milli hæða á heimili þeirra þar.

Yfirvöld á Íslandi hafa sent yfirvöldum á Spáni formlega réttarbeiðni þess efnis að lögreglan á Íslandi taki yfir rannsókn á máli Sunnu Elvíru. Er hún send vegna rannsóknar á „Skáksambandsmálinu“ svokallaða en sem fyrr segir er eiginmaður Sunnu grunaður um aðild að því máli.

Grímur segir að réttarbeiðnin sé enn í vinnslu hjá spænskum yfirvöldum og lítið hafi breyst í þeim efnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×